Jæja, þá er komið að því að ég fari loksins að festa eitthvað niður á blað, tími kominn til! Betra er seint en aldrei, eh Siggi?
Það eru líklega svona 7 ár síðan ég horfði fyrst á myndina About a Boy. Ég fór á hana í bíó og skemmti mér bara ágætlega, hún var fyndin og skemmtileg, en mér fannst hún samt ekkert meistaraverk. Síðan þá hef ég líklega horft á þessa mynd oftar en 20 sinnum og þá ýki ég ekki vitund. Ég ætla að reyna að greina frá því hvers vegna About a Boy býr yfir þessum kosti að vera fjöl-áhorfanleg - svo ég hendi flottu nýyrði inn í þetta blogg - þó ég viti það varla sjálfur. Þetta verður því vonandi ákveðin uppgötvun fyrir mig sjálfan líka.
Myndin er frá árinu 2002 og er byggð á skáldsögu Nick Hornbys, sem ber sama nafn. Hún er leikstýrð af bæðrunum Chris og Paul Weitz, sem áður höfðu unnið að American Pie og Down To Earth. Með aðalhlutverk fara Hugh Grant, Nicholas Hoult (sem jafnframt fer hér með fyrsta stóra hlutverk sitt en leikur núna aðalhlutverkið í hinni vinsælu seríu Skins), Toni Collette og Rachel Weisz. Myndin segir í grófum dráttum frá manni og strák sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt, lifa tveimur gjörólíkum lífum, og hvernig þessi tvö líf tvinnast saman með afdrifaríkum afleiðingum fyrir báða aðila.
Annars vegar segir myndin frá Will (Hugh Grant), manni sem hefur aldrei unnið um ævina og lifir á einkarétti jólalags sem pabbi hans samdi á sínum tíma. Hann eyðir dögum sínum í billjard, hárnuddi, sjónvarpsgláp og að sofa hjá hverri konunni á fætur annarri. Hann er í rauninni svona öfgapiparsveinn. Hann heldur að hann sé mjög sáttur með lífið sitt, það er áhyggjulaust, ábyrgðarlaust en í raun einnig innihalds- og meiningarlaust.
Hins vegar segir myndin frá Marcus (Nicholas Hoult). Hann er strákur sem gengur í grunnskóla en er ekki eins og fólk er flest. Hann býr einn með mömmu sinni, sem er jafnvel öfgakenndari en Will. Hún er grænmetisæta, tónlistarsálfræðingur - sem er víst einskonar kennari fyrir veik börn - og er búin að missa sjónar á tilgangi lífsins, svo maður sé smá dramatískur. Marcus er á engu skárri stað í lífinu. Hann verður fyrir grófu einelti hvern einasta dag í skólanum og getur ekki talað við móður sína um það, því hún hefur ekki vit á því hvernig börn eiga að passa inní hópinn, sem maður sér vel á því hvernig hún klæðir hann og sig.
Leiðir þessara tveggja liggja síðan saman á degi, sem seinna meir er kallaður "The Dead Duck Day". Will er í sinni venjulegu kvennaleit og fer á stefnumót með vinkonu mömmu Marcusar og Marcus flýtur með á stefnumótið. Þau enda með því að drepa óvart önd og er dagurinn skemmtilegur þangað til þau koma heim og í ljós kemur að móðir Marcusar hefur reynt að fremja sjálfsmorð. Ég held að óþarfi sé að tíunda söguna frekar í þessu bloggi, en framhaldinu er þó best lýst með orðum Wills seinna "...þegar maður opnar hurðina fyrir einni manneskju getur hver sem er gengið inn..".
Leiðir þessara tveggja liggja síðan saman á degi, sem seinna meir er kallaður "The Dead Duck Day". Will er í sinni venjulegu kvennaleit og fer á stefnumót með vinkonu mömmu Marcusar og Marcus flýtur með á stefnumótið. Þau enda með því að drepa óvart önd og er dagurinn skemmtilegur þangað til þau koma heim og í ljós kemur að móðir Marcusar hefur reynt að fremja sjálfsmorð. Ég held að óþarfi sé að tíunda söguna frekar í þessu bloggi, en framhaldinu er þó best lýst með orðum Wills seinna "...þegar maður opnar hurðina fyrir einni manneskju getur hver sem er gengið inn..".
Ég hef aldrei haft miklar mætur á Hugh Grant sem leikara. Þá meina ég að eins og of margir leikarar þá leikur hann hlutverkið sitt ekkert beint illa, hann er bara alltaf sami karakterinn. Mynd með Hugh Grant, Morgan Freeman og Denzel Washington yrði t.d. frekar fyrirsjáanleg. "Vandræðalegur hversdagsmaður, sem er smá uptight en leynir á sér einstaka sinnum, hittir gamlan mann sem virðist ekki vera mikið í varið, vinnur kannski í sjoppu eða e-ð, en þegar fyrrverandi hermaður með myrka fortíð kemur inn í líf hans með afdrifaríkum hætti kemur í ljós að gamli maðurinn er vitrari og merkilegri en í fyrstu leit út fyrir." Einmitt vegna þessara fordóma minna gagnvart Hugh Grant kom það skemmtilega á óvart að sjá hann loksins bregða út af vananum - og líka svona skemmtilega vel! Persóna Grants er ólík öllum öðrum hlutverkum hans og er hreint dálæti að fylgjast með samskiptum hans og Marcusar. Nicholas Hoult fer líka mjög vel með fyrsta stóra hlutverkið sitt. Maður sér aldrei á honum að hann sé nýgræðingur í kvikmyndaleik - þó hann sleppi kannski með meira en aðrir þar sem persóna hans er stórskrýtin fyrir. Toni Collette tekst að túlka raunverulega sorgmædda og eyðilagða manneskju á sorglegan hátt en á sama tíma sprenghlæilegan. Fyrir mína parta er ég heldur enginn sérstakur aðdáandi Rachel Weisz en það reynir minnst á hennar hlutverk í myndinni, sem nýju ástina í lífi Will, svo hún sleppur alveg.
Eins og ég sagði fyrr er myndin byggð á bók og ég held að þar liggi hundurinn grafinn, þegar að fjöl-áhorfanleika hennar kemur. Handritið er einstaklega skemmtilegt og verður eiginlega bara skemmtilegra með tímanum. Þetta stafar af því að persónurnar eru bæði það vel skrifaðar og leiknar að setningarnar verða alltaf eðlilegri og eðlilegri. Einnig eru endalaust af skemmtilegum litlum smáatriðum sem eru ekki augljós við fyrstu áhorf. Sem dæmi má nefna að morgunkornið sem Marcus borðar á morgnanna heitir Ancient Grains, sem mér finnst alltaf jafn fyndið.
Kvikmyndatakan í myndinni er líka verð þess að minnast á. Senurnar renna mjúklega inní hvor aðra sem gerir það að verkum að myndin virðist hafa meira flæði og kemur í veg fyrir að hún verði langdregin. Einnig er gaman að sjá hvernig kvikmyndatökumenn og leikstjórar hafa pælt í klippingu í senuvinnu líka, t.d. leggur Will á einum stað þumalputta og vísifingur saman í "O", eins og maður gerir til að tákna að matur sé góður, og síðan líður sú sena yfir í hann að gefa fiskum að borða og þá er hendin í sömu stöðu. Svona litlir hlutir, sem aðeins virka í kvikmyndum, glæða upplifunina meira lífi.
Tónlistin í myndinni gæti raunverulega ekki verið betri að mínu mati. Tónlistarmaðurinn Badly Drawn Boy var fenginn til að semja lög fyrir myndina og rólegt kassagítarsraulið, þó það hljómi asnalega, er einmitt í takt við myndina. Sjálfur hlusta ég oft á tónlistina úr myndinni mér til yndisauka og mæli ég með því að fólk kynni sér tónlistarmanninn.
Eftir 20 áhorf er ég þó alveg sammála fyrsta dómi mínum um myndina að einhverju leyti; hún er alls ekkert meistaraverk. Hún er bara mynd sem að byggir skemmtanagildi sitt ekki beint á söguþræði, situation-húmor eða boðskap (alla vega ekki í mínu tilviki), heldur kemur aðalkostur myndarinnar fram í persónunum sjálfum og samskiptum þeirra, jafnvel þó um ósköp ómerkilegar og hversdagslegar samræður sé að ræða. Henni mætti í raun líkja við pizzu; þetta er ekki besti matur sem maður hefur smakkað, en maður er samt alltaf í stuði fyrir hann og þó hún virðist oft einsleit nýtur maður hennar alltaf.
Ég spái 10 stigum frá Sigga
ReplyDeleteLoksins loksins!
ReplyDeleteOg þetta er stórfín færsla. Ég veit ekki alveg hvort ég vilji uppfylla spá Þórs, en hún kemst nálægt. 9 stig.
Nú þarftu bara að skrifa 10 svona í viðbót, og þá ertu í fínum málum (a.m.k. betri en akkúrat núna).
Þú einfaldlega verður að taka þig á í mætingu og bloggi, auk þess að flytja fyrirlestur um samtímaleikstjóra eftir u.þ.b. tvær vikur. Öðruvísi bætir þú ekki námseinkunnina.
Varðandi leikara sem leika alltaf sama karakterinn:
Í tíma stúdíókerfisins gilti þetta um flestallar stjörnur í Hollywood. Fólk mætti á mynd með Clark Gable með ákveðnar væntingar - og til þess að uppfylla þessar væntingar varð Clark Gable að leika sína hefðbundnu rullu. Það voru bara sumir aukaleikararnir sem léku mismunandi persónuleika milli mynda, og fengu fyrir vikið viðurnefnið "character actors". Síðan má spyrja sig hvort þetta sé ekki enn raunin...